Þann 27. janúar 1907 var Kvenréttindafélag Íslands stofnað á Þingholtsstræti 18, heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Bríet átti frumkvæði að stofnun þess. Hún var fyrsti formaður félagsins og átti mestan þátt í að semja lög þess. Aðdragandi stofnunar félagsins var sá að eftir ferð Bríetar um Norðurlönd sumarið 1904 hóf hún bréfaskriftir við Carrie Chapman Catt (1859–1947) stofnanda International Woman Suffrage Alliance (IWSA) (ísl. Alþjóðakosningaréttarsamtök kvenna). Árið 1906 þáði Bríet boð um að mæta á þing IWSA í Kaupmannahöfn og ákvað í kjölfarið að stofna Kvenréttindafélag Íslands.
Í 2. gr. fyrstu laga félagsins segir að tilgangur félagsins sé:
„að starfa að því að íslenskar konur fái fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og þeir“
Stofnendur félagsins voru eftirfarandi:
- Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856–1940) Formaður 1907–1927
- Sigríður Hjaltadóttir Jenson (1860–1950)
- Ingibjörg Þorláksson (1878–1970)
- Kristín Vídalín Jacobson (1864–1943)
- Guðrún Björnsdóttir (1853–1936)
- Guðrún Pétursdóttir (1878–1963)
- Ingibjörg Guðbrandsdóttir (1878–1929)
- Elín Matthíasdóttir (1883–1918)
- Sigríður Björnsdóttir (1879–1942)
- Jórunn Guðmundsdóttir (1856–1916)
- Guðrún Daníelsdóttir (1870–1945)
- Margrét Stefánsdóttir (1873–1940)
- Þórunn Pálsdóttir (1877–1966)
- Laufey Vilhjálmsdóttir (1879–1960)
- Guðrún Aðalsteinsdóttir (1885–1959)
Félagið er enn starfandi og eru ein elstu félagasamtök Íslands. Félagið er til húsa í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum við Túngötu 14.
Ítarefni:
- Sigríður Th. Erlendsdóttir, Veröld sem ég vil: Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907–1992 (Reykjavík: Kvenréttindafélag Íslands 1993) bls. 53-79
- Kvennasögusafn er með sérsíðu um samband IWSA og KRFÍ varðandi alþjóðabaráttu fyrir kosningarétti kvenna
- Kvennasögusafn varðveitir skjöl félagsins
- Kvenréttindafélag Íslands
- Wikipedia