Íslenskar konur fengu fyrst kosningarétt árið 1882 þegar Danakonungur staðfesti frumvarp til laga um kosningarrjett kvenna sem lög athugasemdalaust. Lögin veittu ekkjum og ógiftum konum sem stóðu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar kosningarétt til sveitarstjórna. Kosningaréttinum fylgdi ekki kjörgengi þ.e. réttur til að bjóða sig fram í kosningum.

Í lögunum segir:

Ekkjur og aðrar ógiptar konur, sem standa fyrir búi eða á einhvern hátt eiga með sig sjálfar, skulu hafa kosningarrjett, þegar kjósa á í hreppsnefnd, sýslunefnd, bæjarstjórn og á safnaðarfundum, ef þær eru 25 ára, og að öðru leyti fullnægja öllum þeim skilyrðum, sem lög ákveða fyrir þessum rjettindum.

(Alþingistíðindi 1881: Fyrri partur – Þingskjölin, bls. 41).

Áður höfðu þó þrjár konur kosið í sveitarstjórnarkosningum, Vilhelmína Lever kaus í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri árið 1863  og þær Steinunn Jónsdóttir og Ingibjörg Pálsdóttir kusu í sveitarstjórnarkosningum í Mosvallahreppi í Öndundarfirði árið 1874.

Árið 1902 fengu íslenskar konur (ekkjur og ógiftar konur sem stóðu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar) sem fengið höfðu kosningarétt til sveitarstjórna árið 1882 svo kjörgengi.

Árið 1907 fengu giftar konur í Reykjavík og Hafnarfirði kosningarétt og kjörgengi og árið 1910 fengu giftar konur í öðrum sveitarfélögum sama rétt. Hjú fengu einnig kosningarétt árið 1910.