Sveitarstjórnarkosningar

Fram að árinu 1930 var mismunandi eftir sveitarfélögum hvaða ár kosningar voru haldnar. Árið 1930 var kosið í allar sveitarstjórnir landsins og þá til fjögurra ára í senn (Wikipedia).
Fyrstu sveitarstjórnarkosningar þar sem íslenskar konur gátu nýtt sér nýfenginn kosningarétt til sveitarstjórna frá árinu 1882 voru haldnar árið 1884 á Ísafirði. Það var Andrea Guðmundsdóttir sem kaus fyrst kvenna í kosningum á Ísafirði.

Árið 1888 voru haldnar bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík og þá kaus Kristín Bjarnadóttir fyrst reykvískra kvenna.
Í frétt Ísafoldar kemur fram að konur hafi fengið kosningarétt sex árum áður og að 10 – 12 konur hafi verið á kjörskrá en einungis ein þeirra hafi nýtt rétt sinn.

Á þingum 1891 – 1893 fluttu Ólafur Ólafsson og Skúli Thoroddsen saman þrjú frumvörp sem snertu réttindi kvenna og þar á meðal var frumvarp um kjörgengi kvenna sem höfðu kosningarétt.
Árið 1902 fengu íslenskar konur svo kjörgengi til sveitarstjórna.

Kjörgengi kvenna
grein í Kvennablaðinu um frumvarpið.

Kjörgengi kvennagrein í Kvennablaðinu eftir að frumvarpið var orðið að lögum.

Árið 1907 fengu konur kjósenda (giftar konur) í Reykjavík og Hafnarfirði kosningarétt og kjörgengi til bæjarstjórna með sömu skilyrðum og karlar.

 

 

Þann 24. janúar 1908 voru haldnar bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík. Í kosningunum voru 18 listar og þeirra á meðal listi kvennaframboðs með konum í kvenréttindafélögum í Reykjavík. Kvennalistinn var með bókstafinn F og fékk flest atkvæði af öllum listum sem í voru í framboði eða 21,8% greiddra atkvæða.
Á kvennalistanum voru Katrín Magnússon, Þórunn Jónassen, Guðrún Björnsdóttir og Bríet Bjarnhéðinsdóttir og voru þær allar kosnar í bæjarstjórn.

Árið 1909 voru samþykkt lög um kosningarétt og kjörgengi í hreppsfélögum og kaupstöðum þar sem konur fengu sjálfstæðan kosningarétt. Skilyrði var lögheimili á staðnum, óflekkað mannorð, væru fjár síns ráðandi, stæðu ekki í skuld fyrir sveitarstyrk og greiddu gjald í bæjarsjóð eða hreppssjóð.

Kvenfélög í Reykjavík buðu fram lista í öllum kosningum til ársins 1918 og konur af þessum listum sátu í bæjarstjórn til ársins 1922.

Árið 1910 var Sólveig Jónsdóttir kosin í bæjarstjórn Seyðisfjarðar af kvennalista.

Árið 1911 var Kristín Eggertsdóttir fyrsta konan sem var kosin í bæjarstjórn Akureyrar.

Árið 1918 bauð Bandalag kvenna fram í kosningum með Sjálfstjórn, félagi borgara. Af lista Bandalags kvenna var ein kona kosin Inga Lára Lárusdóttir.

Árið 1926 var sett samræmd löggjöf um bæjar- og sveitarstjórnir um land allt og í henni fólst að hjú og vinnufólk fékk kosningarétt og kjörgengi. Konur fengu þá jafnrétti við karla um kosningarétt og kjörgengi bæði til alþingis og sveitarstjórna.

Ítaarefni: Gísli Jónsson, Konur og kosningar. Þættir úr sögu íslenskrar kvenréttindabaráttu. (Reykjavík: Bókaúgáfa Menningarsjóðs 1977), bls. 129.

Árið 1957 varð Hulda Jakobsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi fyrst kvenna til að verða bæjarstjóri.

Árið 1959 varð Auður Auðuns borgarstjóri fyrst kvenna. Hún gegndi embættinu ásamt Geir Hallgrímssyni í tæpt ár.

Árið 1982 fékk Kvennaframboðið í Reykjavík tvær konur kjörnar í borgarstjórn og tvær konur kvennaframboðs á Akureyri voru kosnar í bæjarstjórn.

Árið 1994 var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kosin borgarstjóri í Reykjavík og varð fyrsta konan til að gegna embættinu ein síns liðs.