Áskoranir til Þingvallafundarins

Í apríl 1888 birtist grein í Þjóðviljanum þar sem þingeyskar konur skora á ísfirskar konur að slást með sér í lið og safna undirskriftum fyrir Þingvallafund um haustið.

Í áskoruninni var þess krafist:

  1. „Að konur fái jafnan rétt við karlmenn í fjárráðum.“
  2. „Að konur hafi óskoraðan rétt til allra menntastofnana, sem kostaðar eru af landsfé.“
  3. „Að konur hafi rétt til allra embætta í landinu og annarar atvinnu með sömu skilyrðum og karlmenn.“
  4. „Að konur hafi kosningarrétt og kjörgengi til allra opinberra starfa með sömu takmörkunum og karlmenn.“

Á fundinn bárust áskoranir frá 73 konum úr Ísafjarðarsýslu og 27 úr Þingeyjarsýslu.  Skúli Thoroddsen og Pétur Jónsson lásu áskoranir kvennanna upp.

Skúli Thoroddsen, Hannes Hafstein og Pjetur Jónsson voru kosnir í nefnd um málið og að tillöögu þeirra samþykktu fundarmenn að skora á Alþingi að „gefa málinu um jafnrétti kvenna við karla, sem mestan gaum“ með því að:

  • „samþykkja frumvarp, er veitir konum í sjálfstæðri stöðu kjörgengi í sveita- og safnaðarmálum“
  • „að taka til rækilegrar íhugunar, hvernig eignar- og fjárráðum giptra kvenna verði skipað svo, að rjettur þeirra gagnvart bóndanum sé betur tryggður en nú er“
  • „að gjöra konum sem auðveldast að afla sér menntunar“

Á Þjóðskjalasafni má sjá uppkast þremeninganna um málið.

 

 

Ítarefni: