Bæjarstjórnarkosningarnar 1908

Sérstakur kvennalisti bauð fram í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík 24. janúar 1908. Að frumkvæði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og Kvenréttindafélags Íslands buðu kvenfélögin í Reykjavík lista kvennaframbod1908sem eingöngu var skipaður konum og vann sá listi mikinn kosningasigur og hlaut 20% greiddra atkvæða og náðu inn í bæjarstjórn fjórum fulltrúum. Það voru:

  1. Katrín Magnússon (1858-1932), formaður Hins íslenska kvenfélags
  2. Þórunn Jónassen (1850-1922), formaður Thorvaldsensfélagsins
  3. Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856-1940), formaður Kvenréttindafélags Íslands
  4. Guðrún Björnsdóttir (1853-1936),  félagi í Kvenréttindafélagi Íslands.

Kosningabaráttan var mjög vel skipulögð. Reykjavík var skipt í níu hverfi og skipulega var hver kona með kosningarétt heimsótt og hún hvött til að kjósa. Kosningaskrifstofur voru opnaðar, fyrirlestrar haldnir um lagalega stöðu kvenna, kosningalögin og hin ýmsu bæjar- og sveitarstjórnarmál og gefin út kosningastefna.

Það má því segja að þær hafi stýrt fyrstu skipulögðu kosningabaráttu í Reykjavík.

Ítarefni: