Hulda Jakobsdóttir (1911–1998) var fyrsta konan til að verða bæjarstjóri. Hún var bæjarstjóri í Kópavogi 1957–1962.
Hulda var við nám í Miðbæjarskólanum og Menntaskólanum í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi 1931. Hún lauk cand. phil. prófi frá Háskóla Íslands 1932 og lærði seinna frönsku við sama skóla.
Hún starfaði sem gjaldkeri og erlendur bréfritari hjá Efnagerð Reykjavíkur frá 1932 til 1940.
Hulda átti þátt í að stofna Leikfélag Kópavogs, hún var formaður sóknarnefndar Kópavogssóknar og einn helsti hvatamaður þess að Kópavogskirkja var byggð.
Hennar helstu baráttumál sem bæjarstjóri voru menntamál ásamt byggingu kirkju, félagsheimilis og sundlaugar.
Seinna starfaði Hulda sem umboðsmaður Brunabótafélags Íslands og sat aftur sem bæjarfulltrúi 1970-1974.
Hulda var gerð að heiðursborgara Kópavogs árið 1976 og hún var sæmd riddarakrossi 1994.
Ítarefni:
- „Bærinn, sem kona stjórnar: Kópavogur-stærsti bær á Íslandi“ Fálkinn 37. tbl. 9. október 1959, bls. 12-13
- „Gárungar kölluðu Kópavog Litlu-Kóreu“ Alþýðublaðið 2. júlí 1993, bls. 5
- Gylfi Gröndal, Við byggðum nýjan bæ: minningar Huldu Jakobsdóttur heiðursborgara Kópavogs skráðar eftir frásögn hennar og heimildum. (Reykjavík: Almenna bókafélagið 1988)
- „Hulda Jakobsdóttir er fyrsta konan sem kosin er bæjarstjóri hér á landi“, Nýi tíminn 27. júní 1957, bls 8
- Wikipedia